3.7.2009 | 00:21
Viskídrykkja á þjóðvegi eitt - litla systir er komin
Tók upp tjaldið og lagði af stað frá Mývatni klukkan 11. Veður var gott en smá gjóla í fangið meðan ég hjólaði norður fyrir vatnið. Brekkan upp úr Laxárdal var létt enda hjólamaðurinn vel hvíldur. Ég var með vindinn á móti út Reykjadalinn. Fékk mér hamborgara á Laugum og svo varð það heiðin aftur og nú tók aðeins meira í. Þegar kom í Bárðadalinn tók við gott rennsli sem hélst í raun að Víkurskarði. Fnjóskadalurinn skartaði sínu fegursta og sá ég vel inn á Flateyjardalsheiðina þar sem ég fór á gönguskíðum á fimmtugsafmæli mínu í vetur. Víkurskarðið var frekar erfitt en eftir það var þetta létt rennsli. Magnús og Sigrún voru að koma úr Grenivík og keyrðu fram á mig. Þau tóku myndir af mér þar sem ég renndi fram hjá. Þegar ég kom að útsýnispallinum við austanverðan Eyjafjörð var þar fyrir rúta og maður sem stóð með útrétta viskíflösku. Voru þar komnir dönsku eftirlaunaþegarnir sem ég hitti í Jökuldal fyrir nokkrum dögum. Þetta voru miklir fagnaðar fundir og mér boðið upp á viskístaup í tilefni dagsins. Magnús og frú eru hér í íbúð og buðu mér að dvelja hjá sér. Fékk dásamlegan grillmat með góðum gestum. Thelma systir er mætt á staðinn og ætlar að hjóla með mér til Reykjavíkur. Hér fyrir neðan er myndin sem Magnús tók.
Athugasemdir
Hvað er í gangi, bara ekkert nýtt blogg! Er þetta Lati Geir á Ritvöllum?
Rósa Sósa (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.