Góður dagur á Höfn á góðum staða sem heitir Hafnarnes

Er í pásu frá hjólalátum. Fallegt veður og fögur fjallasýn hér á Höfn í dag. Hefði viljað sjá þessa skriðjökla í gær þegar ég hjólaði Mýrarnar. Þar var algert úrhelli. Ég gerði þau mistök að setja ekki strax upp vatnshelda vetlinga og var orðinn æði loppinn á höndunum. Beygði því inn að Brunnhóli og fék að hlýja mér þar og setja upp rétt föt. Mæli með ísnum hjá þeim. Hann er heimatilbúinn og kemur í ýmsum litum og bragðtegundum.  Þegar nær Höfn dró lyfti skýjahulu nokkuð og gerði góða fjallasýn.

Ég gisti í Hafnarnesi rétt utan við bæinn. Þar er öll aðstaða og þjónusta til fyrirmyndar. En vinninginn hefur þó útsýnið á þessum fagra stað. Húsfreyjan hefur verið einkar hjálpleg. Hún meira að segja þvoði af mér! Held að þjónustan gerist ekki betri.

Ég á stefnumót við Ludwig hjólaviðgerðarmann klukkan tvö. Hann ætlar að stilla gíra og laga afturdekkið fyrir mig. Ætti að gera þetta sjálfur en finnst betra að setja þetta í hendur fagmanna finnst þeir eru á staðnum. Familían kemur í dag og verður með mér næstu tvo daga. Það kemur sér vel að geta látið þau ferja kerruna yfir Þvottárskriðurnar. Þar er 12 km kafli ómalbikðaur og ég er feginn að þurfa ekki að hjóla það með kerruna í eftirdragi. Hefði reyndar verið hagstætt að hjóla í dag á Djúpavog. Sunnanáttin hefði borið mig þessa 99 km fljótt og örugglega. Í staðinn hjóla ég þetta á morgun í rigningu og mótvind. En maður verður líka að fá að njóta sín og hvílast pínulítið.

Hjólamennskan í fyrradag var hrein frábær. Hugsa að ég eigi ekki eftir að fá jafn góðan meðbyr í þessari ferð og þá var. Ég gisti í Gerði um nóttina og er það eini staðurinn sem ég hef ekki verið ánægður með. Mér fannst skrítið að vera í tréhúsi þar sem ekki var reykskynjar eða slökkvitæki og lekt klóset! Enginn spegill á klóseti. Sannast sagna dapurt. Hvar eru þeir sem eiga að hafa eftirlit með svona hlutum? Í matsalnum var fullt af einhverju kvikmyndagerðarfólki sem drakk og reykti ofan í gesti og gangandi. Mæli sem sé ekki með Gerði sem gististað. Tók eftir því að þegar ég skrifaði um staðinn í dagbókina mína urðu mér á þau mistök að skrifa Greni í staðinn fyrir Gerði. Hins vegar hef ég verið á gistiheimilinu Hala sem er næsti bær við. Þar eru hlutirnir til fyrirmyndar. Borðaði einmitt hjá þeim í fyrradag í Þórbergssetrinu. Mjög gott hlaðborð og allur maturinn þeirra eigin framleiðsla. Silungur marineraður og grafinn úr fiskeldinu þeirra og lambið úr högum þeirra. Svona á þetta að vera.  En bestu einkunn hingað til fær húsfreyjan á Hafnarnesi. Það bræðir mann alltaf pínulítið þegar fólk bíðst til að þvo af manni :o)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband