Frí á Blönduós

Við ákváðum að taka frí í dag og leggja í hann snemma í fyrramáli. Erum búin að taka frá gistingu í Staðarskála annað kvöld. Nú er bara að skoða Blöndós.

Komin á Blönduós

Þá fer að halla á seinni hlutann á ferðalaginu. Í fyrradag hjóluðum við frá Akureyri til Varmahlíðar. Veðrið var bjart og fallegt og hitinn ef til vill í hærri kantinum. Ferðalagið inn Öxnadal gekk vel. Við stoppuðum á Engimýri fyrir miðjum Öxnadal og borðuðum frábæran hádegismat. Mæli eindregið með þessum stað. Það er mun betra að stoppa þarna og borða en að stoppa á einhverri vegsjoppu og borða lélega hamborgara. Öxnadalsheiðin tók við 10 km eftir matinn og var hún okkur þung í hitanum. Hins vegar var rennslið frábært niður Norðurárdalinn en þegar kom á flatann í Skagafirðinum og um 30 km voru eftir óhjólaðir rauk hann upp með norðan belgingi og það sem ég hélt að væri klukkustundar reið varð að tæplega þriggja tíma. Komum í Varmahlíð klukkan sjö. Fengum enga gistingu á staðnum og ákváðum að halda áfram og gista í Stóra Vatnsskarði. Við voru því búin með hálfa Vatnsskarðsbrekkuna þegar við komumst í náttstað.Alls hjóluðum við 106 km þennan dag sem var nokkuð strembin byrjun fyrir litlu systur. Við þetta fór kílómetratalan hjá mér í 1105 km. Það fór vel um okkur í Stóra Vatnsskarði og sváfum við til 10 en rifum okkur þá upp og fengum okkur morgunmat með sniglabandinu (þeir gistu þarna - voru að skemmta Sniglunum sem eru með landsmót í Húnaveri)

Það var létt verk að klára Vatnskarðið og bruna svo niður í Bólstaðhlíð og út Langadalinn. Þá vorum við komin á Blöndós og tókum okkur á leigu hús á tjaldstæðinu. Nú erum við að velta fyrir okkur hvort við eigum að bíða af okkur umferð helgarinnar og halda ferðalaginu áfram á morgun mánudag.


Bloggfærslur 5. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband