Allt í gódí fíling í sól og blíðu í Mývatnssveitinni

Hetja dagsins er Magnús Ingólfsson sem ég vakti í morgun og gerði út af örkinni til að kaupa dekk og slöngu og koma því á sendiferðabíl fyrir 11. Þetta tókst og mér bárust varahlutirnir klukkan tvö. Hjólið var komið í lag korteri seinna. Maður er orðinn nokkuð klár í að gera við. Átti langt og skemmtilegt spjall við Skoskan hjólamann um hjól og hjólreiðar. Veit núna að þeir sem seldu mér hjólið vissu ekkert hvað þeir voru að segja. Fyrir það fyrsta hefði ég átt að skipta út teinum og setja þykkari teina. Í öðru lagi hefði ég átt að vera með dempara á hnakk. Í þriðja lagið hefði ég átt að vera með "on road off road" dekk. Þau eru millistig milli götudekkja og fjalladekkja. Hann var líka með breiðan og góða pedala og sérlega hentuglaga lögun á bremsu höldum og gíraskiptum. Veit þetta næst. Hins vegar er ég sannfærður um að gamli garmur skili mér heim og eigi eftir að reynast gott "borgarhjól" eins og Skotinn kallaði það. Sá er búinn að vera að hjóla um heiminn í 40 ár. Skotinn hældi hins vegar kerrunni góðu og sagði að þetta hjól hefði ekki þolað feitar hliðartöskur til viðbótar við feitann hjólreiðamann (mér fannst nú svo lítið dónlegt að kalla hliðartöskur feitar - eins og þær hafi engar tilfinningar). Fór í jarðhitaböðin í sólinni og blíðunni. Fannst of mikið að borga 2000 kall fyrir þann drullupoll. Mæli frekar með sundlauginni hérna fyrir 500 kall. Sérstaklega ef fólk er með börn. Það er mun meira við að vera fyrir þau.

Flugan er í algjöru lágmarki en fuglalífið hreint frábært. Flórgoði með unga fimm metra frá tjaldopinu. Margar ólikar endur en enga hef ég séð húsöndina þó þær eigi að teljast einkennisfugl hér. Þær eru hins vegar á mismunandi stöðum í vatninu eftir vindum og liggja líklega sunnanvert við það þar sem er meira af flugu. Nóg í bili....


Ævintýri á heiðum - lögreglan kemst í málið

Lagði af stað frá Jökuldalnum í gær þriðjudaginn 30. júni. Ferðin upp brekkuna gekk vonum framar enda lofthiti lægri en daginn áður og ég úthvíldur eftir nóttina. Þegar upp úr dalnum kom tók við frábær hjólreiðartúr yfir Jökuldalsheiðina með öllum sínum tjörnum og flám. Hver tjörn var skreytt einu álftarpari sem ýmist var á hreiðri eða með unga. Talandi um svanasöng á heiðum. Langidalur og Mörðudalsöræfi tóku við með sýnu hrjóstruga og berangurslega landslagi. Hrein undraveröld að hjóla í gegnum. Svo niður brekkuna að Grímsstöðum á fjöllum þar sem ég hugðist gista en ákvað að taka 40 km í viðbót yfir á Mývatn. Þegar ég átti eftir 25 km ófarna sprakk hjá mér. Ég skipti um slöngu en nýja slangan reyndist gölluð og rifnaði við ventilinn. Fór að skoða dekkið betur og komst að því að það var ónýtt. Þar sem ég lág grenjandi yfir vanda mínum bar að tvo lögregluþjóna þá Hreiðar og Ingvar. Þeir eru í Lögregluliði Húsavíkur. Hreiðar lagði til að við notuðum plástur á dekkið þar sem vírarnir stóðu út sem við og gerðum. Eftir að löggan var búin að setja plástur á dekkið gerði ég við og pumpaði í og viti menn þetta hélt - næstum því. Ég komst að Námaskarði þegar þetta gaf sig aftur og teymdi hjólið þá 7 km sem ég átti ófarna inn á Mývatn. Klukkan farin að ganga tíu þegar ég komst í gistingu. Nú er Magnús Ingólfsson, sem er staddur í orlofsíbúð á Akureyri, að reyna að redda mér dekki og koma því á rútu fyrir ellefu. Ef það tekst er ég "up and running" klukkan fimm í dag. Gæti þá lagt aftur á djúpið eða beðið með það til morguns. Hér er frábært veður sól og 20 stiga hiti (eða meira). Bestu þakkir til þeira Hreiðars (eða hét hann Heiðar) og Ingvars lögregluþjónanna góðu á Húsavík. Svona eiga lögreglumenn að vera. Ég gerði þá samstundis að liðsmönnum í sérsveitum Hringfarans.

Risaeðla í Tjörupitt

Lagði af stað frá Egilstöðum í fyrradag. Ferðin gekk vel nema fyrir það að hitinn var óbærilegur. Um 25 gráður og sól. Mörg vandamál var ég búinn að sjá fyrir en ekki það að festast í tjöru vegna of mikils hita. Þetta var nú samt raunin. Hitinn var svo mikill að tjaran blæddi úr málbikinu og festist við dekkkinn. Hún óðst upp á mig allan og róðurinn þyngdist mjög þar sem þetta snarlega jók viðnámið. Ekki alveg það sem maður þurfti í þessum hita. Þegar kom inn í Jökuldalinn lagaðist tjörumálið en ég var hins vegar orðinn mjög þreyttur þegar ég var kominn Jökuldalinn á enda þá búinn að hjóla 50 km. Við blasti hin ógurlega brekka upp úr Jökuldalnum og mér féllust hendur yfir því púlli að leiða hjólið þar upp. Þá tók ég eftir því mér til ánægju og yndis að komin var greiðasala í gamlaskólanum alveg við endan á dalnum. Þar rekur hann Aðalsteinn í Kirkjuseli Hreindýrasetrið - gististað með sundlaug. Þarna er líka Hákonarstofa helguð minningu Hákons Aðalsteinssonar hagyrðings og móðurbróður Aðalsteins verts. Ég ákvað að gista þarna og var þar í góðu yfirlæti með hópi danskra eldriborgara sem tók lagið við varðeld í Hákonarstofu þá um kvöldið. Hafðu bestu þakkir Aðalsteinn fyrir ánægjulegar samræður og kvöldstund.

Bloggfærslur 1. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband