Kominn á Djúpavog - þreyttur og hrakinn

Það tokst! Lagði af stað klukkan 10:30. Lenti strax í sterkum vind þegar ég kom út úr bænum. Strengurinn í gegnum göngin um Almannaskarð var svo sterkur að ég varð að ganga með hjólið. Þegar í gegn kom tók aðeins betra við og  hélst svo að Stafafelli heimabæ Gunnlaugs. Þegar fram hjá var komið tók við hreint hörmulegt rok og var leiðin frá Stafafelli að Þvott árskriðum hreint helvíti. Margoft feykti vindurinn mér af hjólinu. Einu sinni hallaði ég svo upp í vindinn á ferð minni að hné kom við götuna.  Aftur og aftur þurfti ég að stíga af baki og ganga. Þá reif vindurinn stundum hjólið úr höndunum á mér. Sem betur ber fer var ég ekki með kerruna. Familían var með hana í trússi. Þau náðu mér  við Þvottárskriður þar sem ég sannast sagna var að niðurlotum kominn. Eftir smá næringu lyftist landið á ný. Ég afréð að senda  þau til að finna gistingu og koma svo aftur til að sækja mig. Ég ætlaði að  hjóla á meðan. Það var hins vegar eins og við manninn  mælt. Þegar ég kom út úr bílnum var komið mun skaplegra veður. Ferðin um skriðurnar var hreint frábær  sem og um Álftafjörðinn. Þar var komið logn og fjörðurinn spegilsléttur. Þegar "hjálparsveitin" kom til að sækja mig afþakkaði ég og lauk ferðinni alla leið til Djúpavogs. Alls hjólaðir 100 km á tæpum átta tímum. Meðalhraði tæpir 13 km. Sannarlega erfiðasti dagurinn til þessa en samt - eftir á að hyggja mjög skemmtilegur (alla vega eftir heitt sauna á hótel Framtíð). Á morgun er stefnan sett á Fáskrúðsfjörð aðrir 100  km og leiðin verður hálfnuð (nú er ég búinn með tæpa 600 km)


Áfram alla leið

Átti góða kvöldstund með familíunni og kollega mínum Magnúsi Ingólfssyni og Sigrúnu konu hans. Fórum á hvern staðinn eftir öðrum en enduðum á hótelinu þar sem allt annað var fullt. Þar var hins vegar maturinn frekar dýr og ekki vel úti látinn. Þó heillaðist ég töluver af svartsfuglsreimunum sem hann Magnús pantaði. Mér datt í hug að ef allt mannkynið væri svona matgrant eins og hann Magnús myndi hungur og hallæri vera úr sögunni. Maður myndi borða eina húsaflugu að morgni og vera saddur. Þá yrði sagan af manninum sem mettaði fimm þúsund á einum fiksi ekki merkileg. Meðan við sátum þarna datt Gunnlaugur inn og voru þá fulltrúar Borgó orðnir þrír á staðnum. Gunnlaugur var á suðurleið með hóp sem hann var að leiðsegja á sínum heimaslóðum. Og ég sem var að vona að hann myndi leiðsegja mér um sín æsku tún.

Sólsetrið var hrein frábært í kvöld. Sólin settist bakvið jökulinn. Það var eins og eldur mætt ís. Reyndi að mynda það en það tókst ekki.

Á morgun heldur ferðin áfram með vindinn í fangið geri ég ráð fyrir að vera 7 til 10 tíma að hjóla á Djúpavog. Gæti gert það á þremur með meðvind. Þetta verður bara skemmtilegt.... vona ég.


Bloggfærslur 25. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband