Kominn einum degi fram yfir!

Sæl öll, ég komst ekki til að blogga í gær. Það var frábær dagur. Sól og sterkur meðvindur. Ég naut ferðarinnar til hins ítrasta. Stoppaði á Núpsstað og tók Filipus tali. Hann er 99 ára og sér enn um sig sjálfur. Fer allra sinna ferða á Subarónum. Hélt áfram í Skaftafell en þar var kaldaskítur svo ég ákvað að fara að skála jöklarannsóknarfélagsins á Breiðamerkursandi. Stoppaði í Freysnesi til að blogga en gat ekki vistað færsluna - því var ekkert blogg frá mér í gær. Hitti Kristínu bróðurdóttur mína í Freysnesi. Hún var á ferð með Danna og krökkunum. Eftir smá stopp lagði ég í hann. Var með mótvind út að Hofsnesi en bullandi meðvind eftir það. Skálinn sem ég ætlaði að gista í var fullur af útlendingum svo ég ákvað að stefna beint á Hala í Suðursveit. Vindurinn var lens megnið af leiðinni en verð að viðurkenna að síðustu 10 km voru frekar erfiðir enda búinn að hjóla 130 km þennan dag og taka tvöfalda dagleið. Gisti að Gerði um nóttina. Í morgun var komin bullandi rigning og rok. Lét mig samt hafa það og hjólaði með vindinn í fangið þessa 65 km á Höfn í Hornafirði. Er á leið í sund en ætla taka frí á morgun. Mun blogga nánar um síðustu tvo daga í kvöld eða á morgun. 


Bloggfærslur 23. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband